fbpx Skip to main content

Höfuðverkir, eða hausverkir, eru algengur kvilli sem hefur áhrif á milljónir manna um allan heim. Þeir geta verið allt frá vægum óþægindum yfir í stingandi sársauka sem hefur áhrif á daglegt líf fólks og getur skert lífsgæði þess verulega.

Helstu orsakir höfuðverkja

Algengasta tegund höfuðverkjar er svokallaður spennuhöfuðverkur en flestir hafa einhvern tímann upplifað slíkan höfuðverk. Hann er jafnframt algengari meðal kvenna en karla. Það sem orsakar spennuna getur verið mjög margt en oft eru einkennin þannig að einstaklingurinn spennir háls- og kjálkavöða sem leiðir til höfuðverkja. Verkur og streita í hálsi og herðum getur oft leitt til spennu höfuðverkja og þá getur eirðarleysi, langvarandi streita og svefnleysi valdið slíkum höfuðverk. Slæm líkamsstaða er sömuleiðis algeng orsök höfuðverkja en skekkjur og bólgur í bakinu geta leitt til mikillar spennu sem leiðir upp í höfuðið.

Mígreni er ein algengasta tegund höfuðverkja sem hrjáir fólk. Þrátt fyrir miklar rannsóknir er enn ekki vitað af hverju mígreni stafar. Mígreniskast getur staðið í allt frá hálftíma upp í þrjá sólarhringa og meðan þau standa yfir er erfitt að sinna daglegum athöfnum. Sjúklingar í mígreniskasti vilja oft liggja í algerri þögn og myrkri.

Sýkingar geta einnig valdið höfuðverkjum, sem dæmi vírusar og flensur, bakteríusýkingar og inflúensa.

Þá geta slys og höfuðáverkar valdið höfuðverkjum sem og fráhvörf frá ýmsum efnum og lyfjum.

Kírópraktísk meðferð við höfuðverkjum

Þegar um er að ræða spennuhöfuðverk er, eins og áður segir, orsökin oft spenna og streita í hálsi og herðum, slæm líkamsstaða eða bólgur í líkamanum. Í slíkum tilvikum er kírópraktík einstaklega gagnleg þar sem meðferðin miðar að því leiðrétta stöðu hryggsúlunnar, draga úr bólgum og virkja eðlilega virkni taugakerfisins. Allt stuðlar þetta að því að draga úr spennu og streitu í líkamanum og koma eðlilegri líkamsstarfsemi í gott horf. Í kjölfarið minnkar áreitið á höfuðið og í mörgum tilvikum hverfur höfuðverkurinn.

Þegar kemur að mígreni getur kírópraktísk meðferð hjálpað einstaklingum sem fá regluleg mígrenisköst. Sem dæmi má nefna rannsókn frá árinu 2011 en niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á gagnsemi kírópraktíkar við mígreni. Þannig gefa niðurstöðurnar til kynna að kírópraktísk meðferð geti bæði dregið úr og stytt mígrenisköstin, sem og dregið úr vægi verkjanna þannig að fólk finnur minni sársauka á meðan mígreniskastið gengur yfir.

Heildræn nálgun sem ræðst á rót vandans

Heilt á litið ræðst kírópraktísk nálgun á rót vandans. Til dæmis, ef höfuðverkurinn stafar af rangri líkamsstöðu, þá getur meðferð sem miðar að því að leiðrétta líkamsstöðuna veitt varanlegan bata. Sama má segja ef höfuðverkurinn kemur út frá bólgum í herðum, stirðleika og skekkjum í hálsi og þar fram eftir götunum.

Sömuleiðis er mikilvægur partur af kírópraktískri meðferð allsherjar skoðun á lífsstíl viðkomandi. Sem dæmi, þegar skjólstæðingar hefja meðferð hjá Kírópraktorstöðinni, tökum við viðtal í upphafi meðferðar þar sem er farið yfir lífsstíl viðkomandi. Í meðferðinni sjálfri getur svo kírópraktor gefið ráðleggingar varðandi mataræði, svefn, vinnuaðstöðu, hreyfingu og æfingar sem miða að því að draga úr verkjum og styrkja líkamann.

Þannig er hægt að draga úr og í sumum tilvikum koma í veg fyrir höfuðverki, með heildrænum hætti.

 

 

This site is registered on wpml.org as a development site.