Tennisolnbogi er nokkuð einkennilegt heiti á býsna hvimleiðu vandamáli sem getur hrjáð þá sem stunda íþróttir eða hreyfingu þar sem aukið álag getur myndast á sinar og bandvef í olnboga. Þá sér í lagi þegar viðkomandi íþrótt eða starf krefst endurtekinnar hreyfingar á hönd og úlnlið, eins og til dæmis í tennis eða golfi.
Þó svo að heitið gefi til kynna að vandamálið einskorðist við íþróttafólk þá getur tennisolnbogi líka komið til hjá fólki sem stundar vinnu þar sem samskonar álag myndast á sinar í olnboga. Þetta getur til dæmis átt við um smiði, pípara, málara, fólk sem starfar í fiskvinnslu o.s.fr. Jafnvel fólk sem vinnur skrifstofuvinnu getur þróað með sér vandamálið með tímanum.
Orsakir tennisolnboga
Á vef Vísindavef háskóla Íslands segir: „Tennisolnbogi myndast einkum þegar álag kemur á olnbogann þegar hann er boginn og á sama tíma er gripið (þéttings-) fast, til dæmis utan um tennisspaða eða verkfæri. Vegna of mikillar áreynslu á bandvef sem tengir vöðvana við beinin koma litlar rifur í vefinn sem leiða til ertingar á svæðinu og bólgu. Af þessu stafar verkur sem getur leitt upp í upphandlegg og eins niður með utanverðum framhandlegg.“
Helstu áhættuþættir:
Hér gefur að líta á þætti sem gætu aukið líkurnar á tennisolnboga:
-
Aldur: Þó svo að tennisolnbogi hrjái fólk á öllum aldri er hann algengastur hjá fólki milli þrítugs og fimmtugs.
-
Starfsvettvangur: Fólk sem vinnur störf sem krefjast endurtekinnar hreyfingar á úlnlið og hönd er líklegra en aðrir að fá tennisolnboga. Sem dæmi má nefna pípara, málara, smiði, kokka og fólk í fiskvinnslu. Eins og áður segir geta þó einstaklingar í öðrum störfum fengið tennisolnboga.
-
Vissar íþróttir: Fólk sem stundar íþróttir á borð við tennis, badminton, golf og handbolta, er í aukinni hættu á að fá tennisolnboga, samanborið við fólk sem stundar aðrar íþróttir sem ekki reyna jafn mikið á olnboga, hönd og úlnlið.
Einkenni tennisolnboga
Tennisolnbogi lýsir sér einkum í verk eða óþægindum í vægari tilvikum, sem myndast í kringum vöðvafestingar á utanverðum olnboganum og getur ferðast fram í hönd, leitt upp í upphandlegg og fram í úlnlið. Margir upplifa tennisolnboga á þann veg að í fyrstu finnur einstaklingurinn fyrir óþægindum sem svo hægt og rólega aukast og þróast yfir í mikla verki sem jafnvel, í alvarlegri tilvikum, neyða viðkomandi til þess að draga sig úr sinni íþrótt eða vinnu. Sömuleiðis getur máttleysis tilfinning gert vart við sig í framhandlegg og úlnlið og getur þá reynst erfitt að framkvæma hreyfingar sem reyna á höndina.
Hvað er til ráða?
Þó svo að tennisolnbogi geti verið ansi hvimleitt vandamál hjá mörgum er sem betur fer hægt að vinna bug á vandamálinu í flestum tilvikum. Meðferðir og leiðir geta verið mismunandi, allt eftir eðli vandans og umfangi en sérfræðingar mæla alla jafna með:
-
Meðferð hjá kírópraktor og/eða sjúkraþjálfara
-
Hvíld – viðkomandi er hvattur til þess að hvíla höndina eins og hann getur þannig að sinar og vefir fái að jafna sig.
-
Kælimeðferð – svæðið er kælt í um 15 mínútur, þrisvar til fjórum sinnum á dag.
-
Nuddmeðferð – til þess að losa um bólgur og spennu á svæðinu sjálfu sem og á öðrum stöðum líkamans sem geta átt sinn þátt í vandamálinu.
-
Tækni – í sumum tilvikum gæti viðkomandi þurft að betrumbæta tækni sína í þeirri íþrótt sem viðkomandi stundar. Tennisolnbogi getur því miður orsakast út frá lélegri tækni.
-
Verkjalyf – í einhverjum tilvikum gæti þurft að taka íbúfen eða önnur bólgueyðandi lyf til þess að ná bólgunni niður og draga úr sársauka. Slík meðferð er þó ekki ráðlögð til lengdar sökum aukaverkanna slíkra verkjalyfja.
-
Skurðaðgerð – í verstu tilfellum af tennisolnboga, sem hefur varað 12 mánuði eða lengur og önnur úrræði ekki gengið upp, gæti læknir mælt með skurðaðgerð.
Hvernig meðhöndlar kírópraktor tennisolnboga?
Kírópraktorar hafa heilt yfir mikla og góða reynslu af því að fást við tennisolnboga. Þar gildir góð reynsla kírópraktors í að meta vandamálið út frá heildstæðri nálgun. Með því er átt við að kírópraktorinn skoðar hvort rót vandans sé að finna í olnboganum sjálfum, þ.e. staðbundin bólga, eða hvort orsök vandamálsins liggur í til dæmis hálsi, öxlum eða úlnlið. Í slíkum tilvikum er um taugaverki að ræða sem þarf þá að uppræta á viðkomandi stað.