5 léttar æfingar/teygjur til að koma blóðflæðinu af stað á morgnana

Þegar við vöknum fyrst á morgnana er ef til vill það síðasta sem okkur dettur í hug að fara að gera æfingar og teygjur. Oftar en ekki stillum við vekjaraklukkuna þannig að tíminn sem við höfum frá því að við vöknum þar til að við eigum að mæta til vinnu eða skóla, takmarkast einungis við það að hafa okkur til, fæða og klæða fjölskylduna, koma börnunum af stað inn í daginn og þar fram eftir götunum.

Það getur hins vegar verið ágætis hugmynd að stilla vekjaraklukkuna sirka 20 mínútum fyrr, fara á fætur og hefja nýjan dag á nokkrum laufléttum teygjum og æfingum sem hægt er að framkvæma heima við með auðveldum hætti.

Og það þarf ekki að vera flókið! Aðal málið er að koma blóðflæði líkamans af stað, teygja á stirðum líkamanum og anda djúpt og vel niður í maga.

Ef þú hins vegar hefur tamið þér þá venju að fara í líkamsrækt eða stundar aðra samskonar iðju í morgunsárið hvetjum við þig að sjálfsögðu til þess að halda því áfram. Ef þú hins vegar stundar ekki slíka iðju, því ekki þá að prófa þessar fimm æfingar/teygjur hér að neðan og sjá hvernig þér líður eftir fáein skipti.

 

Æfing/Teygja #1

Full_Body_Opener.png

Byrjaðu í standandi stöðu með axlarbreidd milli fótanna. Gættu þess að halda bakinu beinu, axlir niður, hakan upp og höfuðið í eðlilegri stöðu. Spenntu því næst kviðvöðva áður en þú beygir þig niður í djúpa hnébeygju. Láttu hendurnar síga niður með þannig að þær falli beinar aftur fyrir þig. Lyftu þér því næst rólega upp aftur og sveiflaðu höndunum upp á við þannig að þú réttir alveg úr líkamanum og myndar góða teygju á kjarnavöðva líkamans. Farðu aftur niður í byrjunarstöðu.

Endurtekningar: 20

 

Æfing/Teygja #2

Forward_Fold.png

Byrjaðu í standandi stöðu með fætur örlítið meira út en axlarbreidd. Krepptu kjarnavöðva líkamans og beygðu hnéin örlítið þannig að mjaðmirnar færast aftur. Því næst hallar þú höfðinu sem og höndunum í átt að gólfinu. Þegar þú hefur látið þig síga niður í gólf, taktu þá og leggðu hendurnar á brjóstkassann eða aftan á höfuðið og haltu þessari teygju í 20-30 sekúndur. Farðu því næst rólega upp í standandi stöðu.

Endurtekningar: 3

 

Æfing/Teygja #3

Half-Moon_Pose.png

Byrjaðu í standandi stöðu og hugaðu vel að líkamsstöðunni, þ.e. að kjarnavöðvar líkamans séu spenntir, höfuðið í eðlilegri stöðu (hakan upp) og bakið beint. Haltu fótunum þétt saman. Taktu því næst og réttu úr höndunum upp í loft þannig að lófarnir snerti hvorn annan og fingur kreppist saman, að undanskildum vísifingrunum sem vísa upp í loft. Beygðu því næst líkamann til hægri og haltu í þrjár sekúndur. Hallaðu þér því næst rólega tilbaka og yfir á vinstri hliðina og haltu sömuleiðis í þrjár sekúndur. Taktu þessar hreyfingar til skiptis í takt við fjölda endurtekninga.

Endurtekningar: 15 á hvorri hlið.

 

Æfing/Teygja #4

Low_Lunge_Hold.png

Byrjaðu í standandi stöðu með líkamann beinan og höfuðið í eðlilegri stöðu. Taktu því næst stórt skref fram með vinstri fæti og láttu hnéið á hægri fæti rólega niður í jörðina. Spenntu því næst kviðvöðvana og þrýstu mjöðmunum fram. Réttu hægri höndina hátt upp til lofts. Haltu þessari stöðu í 20 sekúndur. Farðu rólega aftur upp í standandi stöðu og endurtaktu á gagnstæðum fæti.

Endurtekningar: 3 á hvorri hlið.

 

Æfing/Teygja #5

Squat_to_Calf_Raise.png

Byrjaðu í standandi stöðu með fætur í rúmlega axlarbreidd og tærnar vísa örlítið út til hliðana. Réttu úr höndunum beint fram í brjóstkassa hæð. Krepptu því næst kviðvöðva og beygðu þig því næst í hnjánum niður í djúpa hnébeygju. Haltu í 5 sekúndur og gættu þess að hafa beint bak og láta hnéin ekki síga fram fyrir tærnar. Farðu því næst rólega upp aftur og lyftu þér alla leið upp á tærnar og haltu í 3 sekúndur. Láttu þig síga rólega aftur niður á hælana og endurtaktu hreyfingarnar.

Endurtekningar: 20