
Þrálátir verkir í rófubeininu og svæðinu í kringum rófubeinið er þekkt vandamál sem sumir einstaklingar þurfa, einhverntímann á lífsleiðinni, að kljást við. Hvað veldur slíkum verkjum getur verið misjafnt milli fólks en nokkrar ástæður eða atvik geta legið þar á bakvið. En áður en við fjöllum um það er ágætt að fjalla örlítið um rófubeinið sjálft og hvaða hlutverki það gegnir í líkama okkar.
Á Vísindavef háskóla Íslands segir að rófubeinið sé gert úr 3-5 neðstu hryggjarliðunum í rófulausum prímötum sem runnið hafa saman. Þessir liðir eru fyrir neðan spjaldhrygginn og tengjast honum um trefjabrjósklið, sem gerir svolitla hreyfingu milli spjaldhryggs og rófubeins mögulega. Þannig er rófubeinið leifar af rófu sem forfeður okkar voru með.
Hvaða hlutverki gegnir rófubeinið?
Rófubeinið gegnir marvíslegu hlutverki en það veitir nauðsynlegt hald fyrir ýmsa vöðva, sinar og liðbönd ásamt því að vera hluti af vöðva- og beinabyggingu sem styður við okkur í sitjandi stellingu. Vöðvar sem eru mikilvægir fyrir starfsemi mjaðmagrindarbotns festast við rófubeinið að framan en þessa vöðva notum við m.a. þegar við höfum hægðir og þvaglát. Sömuleiðis eru mikilvæg liðbönd tengd rófubeininu meðfram hryggnum og þá er stóri rassvöðvinn fastur við rófubeinið aftanvert og hjálpar okkur að rétta úr lærunum við göngu.
Hvað orsakar verki sem eiga upptök sín í rófubeininu?
Eins og áður segir geta verið nokkrar ástæður fyrir því að við finnum til verkja í rófubeininu en algengustu orsakirnar eru meðal annars:
Barnsburður
Því miður er algeng orsök fyrir verkjum í rófubeininu meðal kvenna tengd barnsburði og fæðingunni sjálfri. Rófubeinið verður sveigjanlegra í lok meðgöngunnar til þess að gera konunni kleift að fæða barnið. Hins vegar verður rófubeinið viðkvæmara fyrir vikið og þar með vöðvar og liðbönd sem umlykja rófubeinið, með þeim afleiðingum að það verður fyrir hnjaski og veldur verkjum.
Meiðsli
Ein allra algengasta orsökin fyrir verkjum í rófubeini er vegna slysa eða meiðsla sem einstaklingar verða fyrir, þar sem beint högg á rófubeinið eða vöðvana þar í kring, verður til þess að rófubeinið skaddast með einum eða öðrum hætti. Slíkt getur gerst þegar við sem dæmi dettum aftur fyrir okkur beint á rassinn. Sem betur fer, í flestum tilfellum, laskast rófubeinið einungis og grær á fáeinum vikum en í verri tilvikum getur það færst úr stað eða jafnvel brotnað.
Íþróttir sem skapa áreynslu á rófubeinið og tengd svæði.
Oft getur fólk fundið fyrir verkjum í rófubeininu eftir að hafa stundað hjólreiðar eða róður af miklum krafti í langan tíma. Ástæðan fyrir því er sú að þegar við höllum okkur fram ítrekað og í langan tíma kemur ákveðin teygja á neðsta svæði hryggsúlunnar. Með tímanum teygjist því á þeim vöðvum og liðböndum sem umkringja rófubeinið, með þeim afleiðingum að umræddir vöðvar missa getuna til þess að halda rófubeininu í réttri stöðu, sem aftur myndar verki og óþægindi á þessu tiltekna svæði sem og niður í grindarbotn og mjaðmir. Sömuleiðis getur verið varasamt fyrir þá, sem eru viðkvæmir í rófubeininu fyrir, að stunda hestamennsku eða aðrar íþróttir þar sem viðkomandi situr tímunum saman á hörðu undirlagi. Þess ber þó að geta að rófubeins verkur sem stafar út frá íþróttaiðkun er sjaldnast alvarlegur eða varanlegur en aftur á móti er nauðsynlegt að grípa til aðgerða ef um stöðugan verk og bólgur er að ræða til þess að fyrirbyggja krónískari vandamál í rófubeininu.
Slæm líkamsstaða
Þegar við sitjum í langan tíma í senn, til dæmis við vinnu eða við akstur, getum við sett of mikla áreynslu á rófubeinið með þeim afleiðingum að við finnum til verkja og óþæginda. Því lengur sem ástandið varir, þeim mun verri verða verkirnir.
Streita í nærliggjandi svæðum
Þar sem rófubeinið er tengt við mjaðmasvæðið og grindarbotninn getur streita og vöðvaspenna á svæðinu óhjákvæmilega valdið verkjum í rófubeininu þar sem stuttir og spenntir vöðvar valda ákveðnu togi í liði og vöðva sem umlykja rófubeinið. Sem dæmi má nefna vöðvaspennu í grindarbotnsvöðvum eða stirðar mjaðmir.
Að vera í yfirþyngd eða of grannur/grönn
Þegar fólk er í yfirþyngd og á jafnvel við offitu vandamál að stríða myndast gríðarleg áreynsla á rófubeinið, þá sér í lagi þegar þetta viðkomandi einstkalingar sitja. Með tímanum getur þetta leitt til mikilla óþæginda og verkja í rófubeininu og vöðvunum þar í kring. Þá eru þeir einstaklingar sem teljast of grannir einnig í áhættuhópi vegna þess að þeir hafa ekki næga fitu eða vöðva á rassinum til þess að koma í veg fyrir að rófubeinið nuddist við bandvefinn sem umlykur það.
Æxli eða sýking
Í örfáum tilvikum getur fólk fundið til verkja í rófubeininu vegna æxlis eða sýkingar sem setur aukið álag á rófubeinið út frá auknum þrýstingi á nálæg svæði.
Hvað er hægt að gera til þess að draga úr verkjum í rófubeini og fyrirbyggja þá?
Góðu fréttirnar eru þær að rannsóknir sem hafa fjallað um verki í rófubeininu hafa leitt í ljós að í yfir 90% tilvika er hægt að ráða bót á vandanum án meiriháttar aðgerða eða annars alvarlegs inngrips.
Þegar um minniháttar verki eða meiðsl er að ræða getur oft verið nóg að kæla svæðið nokkrum sinnum á dag, fyrstu dagana frá því að verkurinn byrjar. Eftir fyrstu dagana getur svo verið gott ráð að nota hitapúða eða leggjast í heitt bað til þess að reyna að draga úr streitu og spennu í vöðvunum í kringum rófubeinið. Þá geta bólgustillandi verkjalyf einnig aðstoðað fyrstu dagana þegar reynt er að ná bólgunni niður.
Í sumum tilvikum gætu einstaklingar sem finna til verkja í rófubeini þurft á frekari aðgerðum að halda en má þar nefna:
Meðferð hjá fagaðila
Kírópraktorar, nuddarar og sjúkraþjálfarar eru margir hverjir með reynslu í að greina og meðhöndla verki í rófubeininu. Oftar en ekki myndast verkurinn út frá vöðvaspennu sem á rætur sínar að rekja í spennu út frá nærliggjandi vöðvum sem aftur getur stafað af einhverskonar óeðlilegri stöðu hryggsúlunnar, svo dæmi séu tekin. Þannig getur, til dæmis, kírópraktor hjálpað viðkomandi einstaklingum að ráða bót á vandanum með því að laga stöðu hryggsúlunnar og þar af leiðandi nærliggjandi svæði sem umlykja rófubeinið og valda verkjunum.
Breyttar venjur
Það getur verið mikilvægt að horfa til þess hvernig við hreyfum okkur yfir daginn, hvernig við sitjum, hversu lengi við sitjum, hvaða íþróttir við stundum o.s.fr. Þannig gætum við þurft að notast við skrifborð sem hægt er að standa við, draga úr hjólreiðum eða hestamennsku, bæta líkamsstöðu okkar, taka aðrar æfingar í ræktinni, teygja betur á stirðum vöðvum og þar fram eftir götunum.
Stuðnings púðar
Til eru sérstakir púðar sem taka pressu af rófubeininu þegar við sitjum en þannig losum við um ákveðna áreynslu sem gæti viðhaldið verkjunum í rófubeininu. Slíkir púðar eru oft hringlaga eða V-laga, með jafnvel holu þar sem rófubeinið hvílir allra jafna.
Breytingar á matarræði
Mikilvægt er að leiða hugann að matarræðinu okkar og reyna eftir fremsta megni að borða holla fæðu sem veldur hvað minnstum bólgum í líkama okkar. Þá er gott að borða mat sem auðveldar okkur hægðir en erfiðar hægðir og hægðatregða getur leitt til aukins álags á rófubeinið.
Nudd
Það getur reynst áhrifaríkt að fara til nuddara og láta nudda svæðið í kringum rófubeinið þar sem vöðvarnir þar í kring, sem dæmi gindarbotninn, mjóbakið, rass- og kviðvöðvar, geta verið stífir og jafnvel uppspretta vandamálsins. Of stífir vöðvar á þessum svæðum geta sett aukið álag á liðbönd og liðamót, hamlað ákveðnar hreyfingar sem aftur myndar óeðlilegt tak fyrir rófubeinið.
Teygjur
Góðar og mjúkar teygjur á nærliggjandi vöðvahópum geta reynst góðar þegar þarf að draga úr streitu á svæðinu í kringum rófubeinið. Þannig er hægt að draga úr vöðvaspennu sem, eins og áður segir, getur verið stór partur af vandamálinu.
Uppskurður og lyf
Í verstu tilfellunum gæti þurft uppskurð til þess að laga vandamálið en þá er oftast um beinbrot eða alvarlega tilfærslu á rófubeininu að ræða. Sömuleiðis ef um sýkingu er að ræða er mikilvægt að fá viðeigandi sýklalyf til þess að ráða bót á vandamálinu.
Ef þú finnur til mikilla verkja í rófubeininu er mikilvægt að þú leitir til fagaðila sem fyrst sem getur hjálpað þér að draga úr verkjunum og stutt við eðlilegan og varanlegan bata. Í sumum tilvikum nægir að greina vandamálið með því að þreifa rófubeinið og svæðið þar í kring en í öðrum tilvikum getur verið nauðsynlegt að taka röntgenmynd eða aðra samskonar myndgreiningu.
Þessi grein byggir á áður birtu efni á vef Spine-Health.com