Verkur eða dofi í fótum og/eða fótleggjum getur verið mismunandi milli fólks, allt eftir orsökum og einkennum. Verkurinn getur þannig verið stanslaus eða kaflaskiptur og þá getur viðkomandi einstaklingur sömuleiðis upplifað daufa og væga verki eða stingandi sársauka. Einnig getur dofi í fótleggjum sem og fætinum gert vart við sig, þ.e. skert tilfinning í fótleggjunum/fótunum, vanmáttur og jafnvel kuldi á mismunandi stöðum í fótleggjunum.
Hvað veldur?
Það sem veldur annaðhvort dofa eða verkjum er eins og áður segir mjög mismunandi, þ.e. orsakirnar eru jafn fjölbreytttar og þær eru margar en algengar orsakir eru m.a.
-
Þrýstingur á taugar eða erting: Þegar ákveðinn þrýstingur, erting eða klemma myndast á taugar í spjald- eða mjóhryggnum, getur það haft í för með sér verki eða dofa í fótleggnum og/eða fætinum. Þá getur verkurinn einnig stafað af taugaskemmdum í fótleggnum.
-
Þrýstingur eða erting í hrygggöngum í hálsinum: Þegar það myndast þrengsli í hrygggöngunum í hálsinum getur það valdið þrýstingi á mænuna sem leiðir til verkja og dofa í báðum fótleggjunum.
-
Hindrun á blóðflæði: Ef það myndast stíflur í æðunum sem koma í veg fyrir eðlilegt blóðflæði til fótleggjanna sem og fótanna, getur myndast dofi og verkur í fótleggjunum og/eða fótunum.
-
Vandamál tengd mjöðmum, mjaðmagrind og grindarbotni: Stundum má rekja orsök fótaverkja og dofa til liða og liðamóta í mjöðmum, grindarbotni sem og tengdum svæðum.
-
Sýking: Hinar ýmsu sýkingar geta valdið verkjum og sjúkdómar eins og Lyme disease, sýkingar í beinum og hryggþófum eða sýkingar af völdum vírusa, til dæmis herpes eða HIV, geta einnig valdið verkjum í fótleggjum.
-
Meiðsli í mjóbakinu: Þegar ákveðinn þrýstingur eða erting myndast á taugar í mjóbakinu getur það valdið óþægilegum einkennum í fótleggjunum, svo sem verkjum og dofa.
-
Bólgur, belgir og æxli: Þegar þættir á borð við bólgur og æxli myndast í mjóbakinu, á mjaðmasvæðinu, í grindarbotni eða fótleggjunum sjálfum getur það valdið þrýstingi á æðar og taugar sem aftur veldur dofa og verkjum í fótleggjum.
Þar að auki getur orsökin oft verið út frá hinum ýmsu öðrum ástæðum, til dæmis vegna ofþjálfunar, meiðsla og tognunar, vatnsskorts, aldurs viðkomandi, lélegrar líkamsstöðu, vegna líkamlegs álags í starfi sem og erfðafræðilegra þátta.
Helstu einkenni
Þegar verkir í fótleggjum sem og fótum gera vart við sig eru helstu einkennin meðal annars:
-
Þreyta: Máttleysi og þreyta er vanalega fylgikvilli mikils þrýstings á taugar í bakinu. Þá geta fæturnir virkað þungir og viðkomandi getur átt erfitt með að ganga, hlaupa eða jafnvel lyfta upp fótleggnum.
-
Óeðlileg eða skert skynjun: Þegar taugar verða fyrir ertingu, þrýsting eða öðru óeðlilegu ástandi, getur viðkomandi einstaklingur fundið fyrir náladofa, sting, kitli eða annarskonar skynjun sem kann að þykja óþægileg.
-
Verkur í fæti: Þegar við finnum til verkja í fótleggnum getur sá verkur einnig ferðast niður í fótinn sjálfann og valdið stingandi verkjum og sviða. Sömuleiðis getur það valdið dofa sem og máttleysi í fætinum.
-
Verkir út frá líkamsstöðu: Verkir í fótleggnum sem og máttleysi geta aukist við ákveðna hreyfingu eða líkamsstöðu, til dæmis þegar við stöndum lengi, göngum upp í mót, stöndum upp frá sitjandi stöðu o.s.fr.
Fótaverkir til langs tíma og batalíkur
Hversu lengi við finnum til verkja, dofa eða annarra óæskilegra einkenna í fótleggjunum og/eða fótunum, fer í raun allt eftir orsök verkjanna. Verkir í fótleggjum sem má rekja til þrýstings á taugar eru ansi algengir og má allra jafna lækna án skurðaðgerðar með 75% – 90% batalíkum. Hins vegar, þegar um króníska verki í langan tíma er að ræða, sem versna með tímanum og svara engri meðferð, getur verið nauðsynlegt að grípa til skurðaðgerðar.
Hvað varðar batalíkur fyrir fótaverki, sem rekja má til annarra þátta, fer algjörlega eftir orsök verksins og alvarleika hennar.
Hvenær verða verkir í fótleggjum og/eða fótum alvarlegir?
Eins og áður segir geta verkirnir komið úr frá misjafnlega alvarlegum orsökum og þegar sum einkenni gera vart við sig er nauðsynlegt að leita sér aðstoðar sem allra fyrst. Meðal slíkra einkenna má nefna:
-
Hiti og skjálfti
-
Mikill verkur og bólga
-
Lítil matarlyst og óútskýranleg megrun
-
Svimi og hausverkur
-
Kvalarfullir bakverkir
-
Stigmagnandi verkir í fótleggnum sem og mikið máttleysi
Ef þú finnur til eins eða fleiri einkenna hér að ofan er mikilvægt að leita til læknis sem allra fyrst þar sem þessi einkenni geta verið afleiðing undirliggjandi sjúkdóma, alvarlegra taugaskemmda eða sýkinga.
Meðferðarúrræði við fótaverkjum
Fjölmargir meðferðaraðilar sérhæfa sig í meðferðum við fótaverkjum en þar má nefna kírópraktora, sérfræðinga í bæklunarskurðlækningum, sjúkranuddara, nálastungu meðferðaraðila sem og fleiri. Erfitt er að tilgreina hvaða meðferðaraðili hentar hverju sinni en mikilvægt er að leita til fagaðila sem geta gefið góða greiningu á fyrirliggjandi vandamáli og unnið að lausn með viðkomandi skjólstæðingi. Þá getur verið gagnlegt að velja fleiri en eina meðferð, til dæmis kírópraktík í bland við sjúkraþjálfun, svo dæmi séu tekin.
Hvernig gæti kírópraktík hjálpað?
Með því að meðhöndla hryggjarsúluna og aðra liði líkamans, með kírópraktískri nálgun, er hægt að draga úr verkjum í fótum. Í meðferð hjá kírópraktor er unnið að meðhöndlun á hryggjarsúlu, liðamótum og vöðvum líkamans, sem getur losað um bólgur og bætt líkamsstöðuna, sem aftur getur losað um þrýsting á taugar og misjafnvægi sem veldur fótaverkjum og fótapirring.