fbpx Skip to main content

Verkur í hálsi sem leiðir upp í höfuðið er nokkuð algengt vandamál hjá fólki sem hefur orðið fyrir hnjaski, lent í slysi, átt við stoðkerfavandamál að stríða og þar fram eftir götunum. Í sumum tilvikum getur slíkur verkur stafað af liðagigt, sýkingum eða jafnvel krabbameini. Á enskri tungu kallast þetta tiltekna vandamál „Cervicogenic headache“ eða CGH og er skilgreint sem verkur sem leiðir frá hálsinum upp í höfuðið. Verkurinn getur þakið svæðið í kringum eyrað og allt fram í ennisblaðið.

CGH og verkur í hálsinum

Verkur vegna CGH byrjar í hálsinum og lýsir sér sem stöðugur verkur en getur líka verið nokkuð dulinn eða vægur á köflum. Verkurinn eykst svo við ákveðnar hreyfingar eða líkamsstöður. Oftast er aðeins um aðra hlið hnakkans að ræða en í verstu tilfellunum getur verkurinn legið í báðum hliðunum. Þá getur CGH einnig lýst sér í stirðleika og erfiðleikum við að hreyfa höfuðið.

Í sumum tilvikum af CGH myndast verkurinn eingöngu í höfðinu en ekki hálsinum. Í slíkum tilvikum getur hálsinn verið viðkvæmur viðkomu, sér í lagi aftan á hálsinum og þá er hætt við því að ákveðnar hreyfingar valdi auknum verk.

Önnur einkenni

CGH getur bæði valdið stanslausum verkjum í höfði og hálsi/hnakka eða verkjum sem kemur í bylgjum. Þá geta önnur einkenni einnig borið á góma, sem dæmi:

·         Verkur sem leiðir til annarra svæða höfðusins.

·         Verkur niður í axlir og hendur á þeirri hlið sem verkurinn er hvað mestur.

·         Í sumum tilvikum veldur verkurinn skertri sjón.

Önnur einkenni CGH sem eru möguleg en þó töluvert sjaldgæfari eru sem dæmi ógleði, viðkvæmni fyrir ljósi eða hljóðum, þreyta og svimi, svo fátt eitt sé nefnt. Þá geta einkennin heilt yfir verið misjöfn, allt eftir alvarleika hvers viðfangs. Þá er CGH nokkuð skylt öðrum tegundum hausverkja, hvað einkennin varðar og því hætt við að því sé ruglað saman við mígreni eða hausverk vegna streitu/spennu. Í einhverjum tilvikum getur CGH myndast samhliða mígrenis kasti eða jafnvel kallað fram mígrenis kast.

Meðferðarúrræði

Meðferðaraðilar sem meðhöndla CGH reyna gjarnan að finna upptök vandamálsins og vinna sig þannig út frá þeirri greiningu sem á sér stað hverju sinni. Eitt meðferðarúrræði sem hefur reynst hvað best við að vinna bug á vandamálinu er kírópraktík en samkvæmt nýlegri rannsókn kom fram að yfir 71% þátttakenda upplifðu minni verk eftir meðhöndlun hjá kírópraktor við einkennum tengdum CGH. Meðferðin sjálf, sem kírópraktorar beita, felst í því að losa um mögulegar klemmur, bólgur eða önnur óeðlileg einkenni í líkamanum, með því að tryggja rétta stöðu og hreyfanleika hryggsúlunnar. Þá gæti kírópraktorinn sömuleiðis upplýst viðkomandi skjólstæðinga sína um æfingar og teygjur sem gott er að framkvæma, breytingar á vissum þáttum í lífi viðkomandi sem og aðrar leiðir til þess að draga úr verkjum.

Hvenær er verkurinn orðinn alvarlegur?

Auðvitað má segja að verkur í hálsi sem leiðir upp í höfuð sé alltaf nokkuð alvarlegur, einfaldlega þar sem hann skerðir lífsgæði okkar verulega. Hins vegar geta komið fram einkenni sem krefjast þess að viðkomandi leiti strax til læknis. Dæmi um slík einkenni er verkur niður í hendurnar, hár hiti og stífur háls, flogaköst sem og verkur við að hósta, hnerra, hlaupa eða þegar viðkomandi beygir sig fram. Ef þú upplifir slík einkenni er ráðlagt að leita til læknis sem fyrst.

Þessi grein byggir á áður útgefnu efni af vef Spine Health.

This site is registered on wpml.org as a development site.