fbpx Skip to main content
 

Líkt og á öðrum stöðum líkamans geta það verið ýmsir þættir sem valda verkjum í hálsi. Sem betur fer er algengt að verkir í hálsi dvíni innan fárra daga ef rétt er hugað að þeim og stundum jafnvel án nokkurrar aðhlynningar. Engu að síður einkennast verkir í hálsi ekki alltaf af saklausri vöðvaspennu eða krampa heldur geta þeir verið þrálátir og staðið yfir til lengri tíma. Þá er mjög mikilvægt að grípa strax inn í og jafnvel leita sér aðstoðar til að ná varanlegum bata.

Slæm líkamsstaða eða röng beiting á líkama í daglegu lífi er algeng ástæða verkja í hálsi. Að sitja lengi við tölvuna bogin/n yfir skrifborðið og með höfuðið hangandi fram setur auka álag á hálsinn. Að vera með símaháls er líka orðið algengt hjá okkur nú til dags. Það er þegar við horfum í símann okkar tímunum saman daglega og beygjum þannig hálsinn í óeðlilega stöðu fram. Við það vegur höfuð okkar meira en eðlilegt er.

Einkenni verkja í hálsi:

Hálsverkir fela venjulega í sér eitt eða fleiri af eftirfarandi einkennum:

  • Stífur háls – eymsli og erfiðleikar við að hreyfa hálsinn, sérstaklega þegar hálsinn er hreyfður til hliðanna.

  • Mikill sársauki í hálsi – verkur sem getur verið staðbundinn á einum stað og kemur í formi stunguverkja. Þennan verk má oft finna neðarlega í hálsi.

  • Almenn eymsli í hálsi – eymsli sem finna má yfir stærra svæði en staðbundinn verk, svæðið á hálsi og þar í kring er þá aumt viðkomu.

  • Taugaverkir í hálsi – verkur sem getur komið meðfram taugum sem liggja frá hálsi og niður í axlir og handleggi. Verkurinn getur verið mismikill en kemur í formi hálfgerðs bruna.

  • Vandræði með að lyfta og grípa hluti – þetta getur gerst ef dofi eða máttleysi má finna í handleggjum og fingrum út frá verkjum í hálsi.

  • Höfuðverkur – stundum getur erting í hálsi haft áhrif á vöðva og taugar sem tengjast höfðinu.

Einkenni hálsverkja geta verið stöðug, horfið hratt, komið og farið reglulega eða komið aftur með hléum. Ákveðnar hreyfingar og athafnir, til dæmis að hnerra eða hósta geta gert hálsverki verri.

Verkir í hálsi geta auðveldlega haft áhrif á okkar daglega líf, til dæmis þegar við erum að klæða okkur, við vinnu og í fleiri athöfnum sem fela í sér að snúa höfðinu til hægri eða vinstri, upp eða niður. Ef verkir í hálsi eru til staðar til lengdar geta þeir einnig farið að hafa áhrif á svefninn okkar. Að sama skapi getur svefnaðstaða okkar og stellingar haft gífurleg áhrif á verki í hálsi. Við mælum með því að reyna að sofa á bakinu en þannig er hryggurinn í sinni eðlilegustu stöðu. Ef það reynist erfitt að sofna á bakinu þá mælum við með að sofa á hliðinni, að minnsta kosti að reyna að komast hjá því að sofa á maganum. Að sofa á maganum veldur mestu álagi á hrygginn okkar og háls sem getur auðveldlega leitt til daglegra verkja.

Hér má finna 10 góð ráð í stuttu myndbandi sem hjálpa okkur við að koma í veg fyrir verki í hálsi. Þetta eru allt þættir sem koma að okkar daglega lífi og er gott að hafa á bakvið eyrað.

Þróun hálsverkja:

Hálsverkir þróast oftast á einhvern af eftirfarandi vegu:

  • Verkir sem þróast hægt og rólega með tímanum – verkir sem byrja vægt og koma jafnvel bara í lok vinnudags en versna og verða tíðari með tímanum.

  • Verkir strax í kjölfar meiðsla/slyss – verkir sem koma beint eftir til dæmis bílslys eða ranga svefnstellingu.

  • Seinir verkir í kjölfar meiðsla/slyss – verkir sem koma dögum eða jafnvel mánuðum eftir meiðsli eða slys. Geta komið í kjölfar tognunar og geta versnað með tímanum.

  • Skyndilegir verkir án nokkurrar skýringar – stundum geta verkir í hálsi byrjað skyndilega við eðlilegar aðstæður án frekari skýringar.

Úrræði:

Það er margt sem við getum sjálf gert til þess að koma í veg fyrir verki í hálsi og hjálpað til við að laga þá.

  • Hvíld – hér er verið að tala um að hvíla hálsinn inná milli, það getur þó gert honum gott að halda inni reglulegri hreyfingu en hvíla þær æfingar í nokkra daga  sem setja óþægindi á hálsinn.

  • Hita og kæla – að kæla aumt svæði getur dregið úr bólgum og sársauka og að hita aumt svæði getur slakað á vöðvum og komið af stað auknu blóðflæði. Þegar notast er við hita- eða kæliaðferðir er gott að miða við 5-10 mínútur í senn og taka pásur á milli.

  • Léttar og mjúkar teygjur – hægt er að losa um sumar gerðir af verkjum í hálsi með léttum og/eða mjúkum teygjum. Þó ef ákveðin hreyfing eða teygja eykur sársauka er mælt með að sleppa þeirri hreyfingu.

Aðrir hlutir sem við getum gert sjálf til að koma í veg fyrir verki í hálsi er að lifa heilbrigðum lífsstíl. Það felur í sér að borða næringarríkt, sofa 7-8 klst. allar nætur, sleppa eða nota áfengi í lágmarki, hreyfa sig daglega og fleira.

 

 

Kírópraktík og verkir í hálsi

Kírópraktísk nálgun hefur aðstoðað marga sem kljást við verki í hálsi. Í fyrsta tíma á Kírópraktorstöðinni er farið í viðtal hjá kírópraktor, í hreyfifærnipróf, í hita- og taugamælingar á baki og hálsi og í röntgen myndatöku ef við á. Niðurstöður allra þessara mælinga hjálpa kírópraktornum að greina og vinna með það vandamál sem er til staðar. Ef svo er metið að meðferð hjá kírópraktor sé viðeigandi getur sú meðferð hjálpað til við leiðréttingu á hryggjasúlu og líkamsstöðu, losa um klemmdar taugar og stirða liði og annað sem tryggir eðlilegt flæði hreyfingar og virkni í líkamanum. Kírópraktorinn metur svo hvaða meðferð er viðeigandi fyrir hvert tilfelli. Við mælum með að kíkja til okkar á Kírópraktorstöðina í fyrsta tíma ef eitthvað af þeim einkennum sem hér hafa verið nefnd eru að hrjá þig.

This site is registered on wpml.org as a development site.