fbpx Skip to main content
iStock-498883930.jpg

Mjóbakið er vægast sagt stórkoslegt fyrirbæri, sterkt og sveigjanlegt og gegnir lykilhlutverki fyrir heilsu okkar. Það hversu háþróað það er eykur hins vegar hættuna á ýmsum vandamálum. Vegna hinna fjölmörgu tauga sem liggja í gegnum mjóbakið til allra svæða líkamans getur skekkja eða meiðsl í mjóbakinu leitt til fjölmargra annarra meiðsla og vandamála í líkamanum, til dæmis í fótleggjum, mjöðmum, liðum o.fl.

Því miður er hætt við því að flest okkar muni á einhverjum tímapunkti í lífinu finna til verkja í mjóbakinu. Ástæðurnar geta verið eins margar og þær eru fjölbreyttar, til dæmis meiðsli vegna íþróttaiðkunar, álag í vinnu, langvarandi kyrrseta, erfðafræðilegir sjúkdómar eða veikindi og þar fram eftir götunum.

Krónískur verkur í mjóbakinu

Þegar verkur hefur varað í þrjá mánuði eða lengur á sama svæðinu er gjarnan talað um krónsískan verk. Í slíkum tilvikum er líkaminn ekki að ná að ráða bót á vandanum og því þörf á utanaðkomandi aðstoð. Þegar um krónískan verk í mjóbakinu er að ræða tengist það gjarnan þrýsting/ertingu á taugar, skaða í hryggjarliðum, liðþófum eða brjóski, óeðlilegri lögun hryggjarsúlunnar eða út frá bólgum og verkjum í nærliggjandi vöðvum.

Í einstaka tilfellum getur verið um alvarlegri orsakir að ræða, svo sem sýkingar, æxli eða sjálfsónæmissjúkdóma.

Helstu einkenni

Verkur í mjóbakinu getur verið bráður og verulega sár ef um meiðsli er að ræða. Ef ekkert er að gert getur slíkur verkur orðið krónískur með tímanum. Ef aftur á móti er gripið snemma inn í ferlið er hægt að lágmarka bæði verkin sem og þann tíma sem viðkomandi einstaklingur finnur til í bakinu.

Fyrsta skrefið í bataferlinu er að koma auga á einkennin sem og orsök þeirra. Þeim mun nákvæmari sem sú greining er, þeim mun líklegra er að hægt sé að ráða bug á vandanum með skjótum hætti. Þau einkenni sem allra jafna gera vart við sig eru meðal annars:

 • Daufur verkur eða seyðingur í mjóbakinu sem mögulega skerðir að einhverju leyti hreyfigetu sem og leiðir út í mjaðmir og grindarholið.

 • Verkur eða dofi sem ferðast niður í rassinn og fótleggina. Dæmi um slíkt er svokallað þjótak (e. sciatica).

 • Verkur sem versnar eftir mikla kyrrsetu.

 • Þá getur aftur á móti verkurinn skánað þegar viðkomandi stendur upp eða hallar sér fram á eitthvað. Það fer í raun allt eftir eðli verkjarins.

 • Verkur sem er hvað mestur á morgnana en skánar þegar líður á daginn sem og þegar viðkomandi heldur sér á hreyfingu.

 • Verkur sem þróast hægt og rólega með tímanum, til dæmis eftir mikla kyrrsetu svo mánuðum eða árum skiptir.

 • Verkur sem kemur og fer en versnar eftir því sem líður á.

 • Verkur sem kemur snögglega, til dæmis vegna meiðsla.

Þá geta auðvitað annarskonar verkir og einkenni komið upp hjá fólki með mjóbaks vandamál. Slíkir verkir geta verið mjög einstaklingsbundnir og þá geta orsakirnar sem og ólíkir þættir haft þar mikil áhrif, samanber andleg og líkamleg heilsa, streita, starfsvettvangur og hreyfing, svo fátt eitt sé nefnt.

Hins vegar er mikilvægt er að leita sér tafarlaust læknis aðstoðar ef eftirfarandi einkenni gera vart við sig:

 • Erfiðleikar með að kasta þvagi eða stjórna þvaglátum og hægðum.

 • Hiti og kuldaköst sem rekja má til verkja í bakinu

 • Skjót megrun sem ekki er hægt að rekja til æfinga eða breytinga á matarræði/lífsstíl

 • Ákafur og stanslaus verkur í kviðarholi

 • Dofi eða máttleysi í báðum fótum

Greining á verknum

Hluti af þeirri greiningu sem á sér stað, þegar um verki í mjóbaki er að ræða, er oft í formi viðtals við skjólstæðinginn þar sem farið er yfir sjúkrasögu hans, líðan, einkenni og í kjölfarið er hægt að nýta þá vitneskju til þess að greina orsök vandans og eðli verkjarins. Þar er meðal annars skoðað:

 • Upplýsingar um núverandi stöðu og hvar viðkomandi finnur til verkja, hversu oft, hversu mikið, skilgreining á eðli verkjarins og í hvaða aðstæðum hann allra jafna kviknar.

 • Hreyfigeta og hversu oft viðkomandi einstaklingur hreyfir sig og æfir. Þá er sömuleiðis farið yfir starfsumhverfi viðkomandi sem og almenna þætti er varða hreyfingu og lífsstíl.

 • Svefnvenjur, þ.e. hvernig eru gæði svefnsins hjá viðkomandi einstakling, hversu lengi sefur hann, hversu oft vaknar hann á nóttunni o.s.fr.

 • Líkamsstaða viðkomandi og í hvaða stellingum honum líður hvað best.

 • Meiðsli og meiðslasaga viðkomandi, jafnt gömul sem ný.

Þessi listi er að sjálfsögðu ekki tæmandi en gefur eftir sem áður innsýn inn í mikilvægi þess að greina lífsstíl, venjur og umhverfi skjólstæðinga hverju sinni.

Það er síðan mismunandi milli meðferðaraðila hvernig líkamleg skoðun fer fram, allt eftir færni, menntun og aðgengi að tækjum og tólum. Sem dæmi má nefna að á Kírópraktorstöðinni eru skjólstæðingar teknir í viðtal, skoðun og síðar á sér stað mælingar á taugakerfi og boðum, mat á líkamsstöðu framkvæmt og röntgenmyndir teknar ef þörf er talin á. Þannig fæst heilstæð greining sem gerir meðferðina þeim mun áhrifaríkari og líklegri til árangurs.

Meðferðarúrræði

Oftar en ekki er hægt að vinna bug á verkjum í mjóbaki með hinum ýmsu meðferðum. Sem dæmi:

Meðferð hjá kírópraktor

Ein algengasta ástæðan fyrir því að fólk leitar til kírópraktors er verkur í baki og þá sér í lagi krónískur verkur í bakinu. Slíkir verkir geta komið vegna fjölda ástæðna og tengjast oft lífsstíl, vinnu, matarræði og almennu heilsufarslegu ásigkomulagi viðkomandi. Með kírópraktískri nálgun er hægt að draga úr umræddum verkjum og koma bakinu aftur í eðlilegt ástand.

Nudd meðferð

Það getur einnig verið gott að fara reglulega í nudd til þess að losa um krampa og eymsli í vöðvum sem getur aukið verki í mjóbakinu. Með góðu nuddi er hægt að tryggja blóðflæði og upptöku næringarefna og súrefnis til vöðvanna, sem aftur flýtir fyrir batanum.

Heitt og kalt til skiptis

Þú getur nýtt þér bæði kulda- og hita meðferðir þegar um mjóbaksverki er að ræða en þó er mikilvægt að taka slíkar meðferðir í réttri röð og vel tímasettar. Sem dæmi, ef þú finnur allt í einu til verkja í mjóbakinu er mikilvægt að kæla fyrstu 24-48 klst, 10 mínútur í senn og með a.m.k. 10 mínútna millibili. Eftir einn til tvo daga getur þú aftur á móti farið að nýta þér hita meðferðir en hiti strax eftir meiðslin getur aftur á móti framkallað auknar bólgur og gert vont, enn verra. Hafðu þó varan á og gættu þess að setja ekki of mikinn hita á húðina þar sem slíkt getur einfaldlega valdið bruna.

Breytingar á lífsstíl

Styrktu kjarnavöðva líkamans og æfðu reglulega

Sterkir kjarnavöðvar og almennt gott líkamlegt form viðheldur stuðningi við mjóbakið og kemur í veg fyrir meiðsli. Öll hreyfing eykur blóðflæði í líkamanum og kemur af stað ferli sem hjálpar eðlilegri líkamsstarfsemi og þar með talið mjóbakinu að styrkja og viðhalda sveigjanleika þess. Ef þú ert á byrjunarreit hvað hreyfingu varðar er mikilvægt að byrja rólega og setja þér raunhæf markmið. Til dæmis að ganga stiga í stað þess að taka lyftuna, fara í göngutúr, sund, sitja á æfingabolta í stað skrifborðsstóls og finna þér hreyfingu sem hæfir þér og þínum áhugamálum.

Endurhannaðu vinnuaðstöðuna þína

Ef þú vinnur við skrifborð allan daginn eru allar líkur á því að verkurinn sem þú finnur fyrir í mjóbakinu sé afleiðing þeirrar vinnu, þ.e. vinnu aðstöðu. Með því að breyta hins vegar vinnu aðstöðunni, með það fyrir augum að gera hana betri fyrir heilsuna þína, getur þú dregið úr bakverknum og janvel komið í veg fyrir hann. Þessi endurhönnun hefst á nokkrum lykilatriðum, svo sem að endurraða hlutum á skrifborðinu, stilla stólinn í rétta hæð sem og skjáinn.

Borðaðu fæðu sem byggir upp beinin

Hollt matarræði hefur margvísleg jákvæð áhrif þegar kemur að mjóbakinu. Í fyrsta lagi ber að nefna að hollt matarræði heldur líkamsþyngd þinni innan eðlilegra marka og því engin umfram þyngd sem leggst á mjóbakið. Í öðru lagi mun matarræði, sem er ríkt af næringarefnum sem styðja við vöðva og bein, hjálpa þér að byggja upp styrk og viðhalda þannig sterkum beinum og vöðvum. Sem dæmi má nefna kalk, fosfór og d vítamín,

Finndu góða svefnstöðu

Að sofa á hliðinni er ein algengasta svefnstaðan sem fólk temur sér og er án efa sú besta fyrir mjóbakið. Þá getur verið gott að setja púða milli fótanna (best er að setja púðann þar sem hnéin mætast) en það tryggir betri stöðu fyrir mjóbakið. Ef þú vilt fremur sofa á bakinu, prófaðu þá að leggja púða undir hnéin þín sem aftur styður við mjóbakið. Flestir sérfræðingar mælast hins vegar gegn því að sofa á maganum, þá sérstaklega þegar um bakverki er að ræða.

Vertu í þægilegum skóm sem veita góðan stuðning

Ein leið til þess að draga úr verkjum í mjóbaki og öðrum stoðkerfis vandamálum er að ganga í góðum skóm sem veita fullnægjandi stuðning. Sem dæmi má nefna íþróttaskó og aðra skó með þykkum og mjúkum botni. Þó svo að hælaskór séu e.t.v. ekki besta lausnin er eftir sem áður í góðu lagi að ganga í hælaskóm, svo lengi sem botninn er mjúkur og veitir góðan stuðning þegar gengið er á hörðu yfirborði.

Skelltu þér í jóga

Samkvæmt rannsókn sem birtist í hinu ritrýnda tímariti “Annals of INternal Medicine”, eru sterkar vísbendingar sem benda til þess að jóga geti haft jákvæð skammtíma áhrif þegar kemur að því að draga úr verk í mjóbaki. Jóga felur í sér mjúkar og hægar hreyfingar sem hjálpa þér að styrkja og teygja á líkamanum, án þess þó að komi til einhverskonar högga eða annars álags sem gæti leitt til frekari meiðsla. Þá getur jóga einnig hjálpað þér að losa um streitu og álag sem gæti losað enn frekar um spennu sem þú viðheldur í líkama þínum. Ef þú hins vegar ert að glíma við mjög alvarleg meiðsli í mjóbaki, jafnvel brjósklos, þursabit eða önnur samskonar veikindi, skaltu ráðfæra þig við sérfræðing áður en þú byrjar í jóga.

Lagaðu líkamsstöðuna

Léleg líkamsstaða setur mikinn þunga og pressu á mjóbakið og getur á endanum valdið verkjum og meiðslum í bakinu sem aftur leiðir út í útlimi líkamans. Þú þarft því að huga vel að líkamsstöðu þinni og gæta þess að hryggsúlan fái að halda sinni eðlilegu stöðu og þannig sinna sínu hlutverki sem er það að halda líkama þínum uppréttum og beinum. Ef þú vinnur hefðbundin skrifstofustörf er mikilvægt að þú standir reglulega upp úr stólnum og gangir um, helst á hálftíma fresti. Þá eru skrifborð sem hægt er að standa við mjög hentug þegar kemur að því að skipta á milli sitjandi og standandi stöðu. Hér getur þú svo lesið um æfingar sem hjálpa þér að styrkja eðlilega líkamsstöðu þína.

Þessi grein byggir á áður birtu efni af vefsíðum Spine Health og Kírópraktorstöðvarinnar.

This site is registered on wpml.org as a development site.