fbpx Skip to main content

Kylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson er flestum Íslendingum kunnugur en hann hefur verið okkar fremsti golfari um árabil og unnið til fjölda verðlauna. Birgir fæddist þann 16. maí 1976 og hóf að leika golf 12 ára gamall en hann vann sinn fyrsta Íslandsmeistara titil í golfi  árið 1996, þá aðeins tvítugur að aldri. Ári seinna gerðist Birgir atvinnumaður í golfi og síðan þá hefur hann landað fjölda Íslandsmeistaratitla og keppt á alþjóðlegum stórmótum um heim allan.

Þá eru það ekki einungis persónulegir sigrar á vellinum sem einkenna feril hans en Birgir Leifur hefur tekið virkan þátt í uppbyggingu á öflugu starfi hér heima og hefur miðlað þekkingu sinni áfram til annarra iðkanda í golfi.

Okkur fannst því vel við hæfi að fá að spyrja hann nokkurra laufléttra spurninga, nú þegar golf sumarið er handan við hornið.

 

Hvernig hefur þú það?

Birgir Leifur: Ég er mjög góður þessa dagana, hef verið í ströngu prógrami til þess að komast á betri stað í minni íþrótt.

Er líkaminn í góðu standi?

Birgir Leifur: Hann er að verða betri og betri finnst mér og er ég farinn að geta æft og keppt meira en áður. Þökk sé Bergi Konráðs og Kírópraktorstöðinni.

Hver er þinn helsti styrkleiki þegar kemur að golfi?

Birgir Leifur: Minn helsti styrkleiki myndi ég telja er leikskipulag og að þekkja minn leik vel, þá er ég að tala um mína veikleika og styrkleika.

Hvað með veikleika?

Birgir Leifur: Ekki nógu stöðugur í stutta spilinu, of langt bil á milli þessa að vera sjóðandi heitur og svo koma dagar sem ég er alls ekki nógu góður.

Hefur þú upplifað áður á ferlinum að vilja hætta í golfi? – eða að áhuginn hafi dvínað?

Birgir Leifur: Já það hefur komið fyrir, þá sérstaklega þegar ég lenti í erfiðum meiðslum. Það var erfiður tími, þá fannst mér allt vera að hrynja. En svo virðist sem  hungrið og ástríðan fyrir golfinu hafi alltaf yfirhöndina hjá mér. Því ég elska allt við þessa íþrótt sama hvort ég er að miðla minni reynslu eða reyna að verða betri kylfingur sjálfur með hverjum deginum.

 

Hvaða eiginleikar í fari þínu hafa leitt til þess að þú hefur náð þeim árangri sem þú hefur náð?

Birgir Leifur: Ég myndi segja ástríðan, þrautsegjan, þolinmæðin sem skili sér í það að ég hef tamið mér að gefast aldrei upp og reyni að gefa alltaf 100% einbeitingu í það sem ég er að gera.

 

Hverjar eru þínar helstu fyrirmyndir?

Birgir Leifur: Ég dáist af öllum sem leggja hart að sér og gefa sig 100% í verkefnið sitt sama hvort það er í íþróttum eða í atvinnulífinu.  Svo verð ég að nefna nafna minn heitinn afa sem kenndi mér mikilvægi þess að elta drauma sína og vera ávallt jákvæður og góður við nánungann.

 

Nú eigum við Íslendingar góða flóru af atvinnumönnum í allskyns íþróttum, einhver einn eða fleiri atvinnumenn sem standa upp úr að þínu mati?

Birgir Leifur: Það er erfitt að gera upp á milli okkar frábæra íþróttafólks þar sem við höfum náð gríðarlega glæsilegum árangri í gegnum tíðina  á svo mörgum sviðum og munum klárlega halda því áfram. Ég fylgist mjög mikið með knattspyrnu þar sem ég stundaði það sem peyji. Þá er það sem hefur fyllt mig mestri gæsahúð er þegar strákarnir náðu inn á sitt fyrsta stórmót, evrópumótið. Það ævintýri var alveg magnað afrek og gaman að upplifa það sem stoltur Íslendingur. Ég var þá að ferðast mikið um Evrópu að keppa og það var gaman hvað allir aðrir leikmenn voru að samgleðjast mér að vera frá Íslandi og spurðu mig spurninga um hvernig við færum eiginlega að þessu.

 

Upphálds völlur til þess að spila á – hér heima og erlendis?

Birgir Leifur: Hér heima á ég margar góðar minningar á mismunandi völlum og verð ég að nefna nokkra í því dæmi

Akranes GL  þar sem ég ólst upp, mótaðist sem kylfingur og fékk bakteríuna fyrir þessari yndislegu íþrótt. Var bara 9 holur þegar ég byrjaði en er orðinn einn af okkar bestu 18 holu völlum.

Vestmannaeyjar GV  þar sem ég vann minn fyrsta íslandsmeistaratitil og eftir það hófst atvinnuævintýrið. Einnig vegna þess að ég er hálfur eyjapeyji þar sem móðurættin mín er öll þaðan. Það má líka til gamans geta að ættin gaf jörð fyrir seinni 9 holurnar á Vestmannaeyjavelli.

GKG tók svo við þegar ég flutti frá Akranesi, með þeim hef ég átt frábæran tíma og unnið með þeim marga íslandsmeitaratitla og hefur völlurinn þar þroskað mig og þróað sem kylfing til betri vegar.

Svo vil ég nefna Korpuna GR sem minn uppáhalds keppnisvöll því hann hefur þá eiginleika að reyna á alla þætti leiksins og hann er mótaður/hannaður þannig að hver hola liggur ein stök og engin önnur liggur meðfram henni með hættum allsstaðar. Ég væri til í að sjá svarta teiga á þessum velli sem myndi gera völlinn ca 300m lengri, það væri geggjað.

Erlendis þá verð ég að nefna Leopard Creek í Kruger Park Suður- Afríku, mesta upplifun sem ég hef átt á golfvelli fyrr og síðar. Stórbrotið náttúrulíf í stærsta þjóðgarði Suður-Afríku. Svo skemmir ekki að völlurinn er frábær skemmtun og krefjandi. Völlur sem er notaður á European tour.

Hvernig er æfinga-rútínan þín utan vallar – til dæmis í ræktinni?

Birgir Leifur: Æfingatímabil  er ég 5 sinnum í viku og blanda saman lyftingum, liðleika og úthaldi. Svo þegar ég er á keppnistímabilinu þá er mikið um liðleika alla daga og þá fer ég 2-3 sinnum í viku til þess að viðhalda styrk.

Hvað með teygjur og almennan liðleika – er það partur af rútínunni?

Birgir Leifur: Liðleikaæfingar nota ég mikið, bæði í undibúning fyrir og eftir hring. Það má alveg kalla þetta að hluta til jóga æfingar.

Hvað með kírópraktík – er það mikilvægur þáttur í ferlinu fyrir þig sem og almennt fyrir golfara?

Birgir Leifur: Eftir að ég meiddist þá kynntist ég kírópraktík og sá það fljótt að það yrði að vera hluti af minni rútínu bæði til þess að geta æft meira og tala nú ekki um að líða betur og geta gert þær hreyfingar sem ég vil geta náð í minni Íþrótt. Ég er þannig að ég vil fræðast mikið um líkamann minn og hvað hann getur og kírópraktíkin hefur hjálpað mér gríðalega mikið að skilja líkamann minn betur sem ég tel nauðsynlegt og mikilvægt til þess að ná lengra.

Áttu þér uppáhalds íþrótt að golfinu frátöldu?

Birgir Leifur: Allt sem tengist bolta eða kúlu, en knattspyrna hefur alltaf verið mín uppáhalds íþrótt fyrir utan golf.

Nú ertu yfirlýstur United maður – hvernig líst þér á fastráðningu Ole Gunnar Solskjær?

Birgir Leifur: Já stoltur Man UTD maður síðan ég var 5 ára og byrjaði að elta tuðruna á grösum Akranesbæjar 😉 Eitt sem ég veit er að hann Ole mun gefa allt fyrir félagið og það er ég ánægður með en þeir hefðu alveg mátt bíða með að fastráða hann því taktíkin var að ganga upp með að halda öllum á tánnum og hungruðum  í að sanna sig. Ég hefði líka verið ánægður með Pochettino. En svo lengi sem við reynum að spila skemmtilega knattspyrnu og allir leggja sig 100% fram fyrir félagið þá er ég sáttur.

 

Mikilvægasta lexía sem þú hefur lært á lífsleiðinni?

Birgir Leifur: Að leggja sig 100% fram sama hvað þú tekur þér fyrir hendur því það kemur ekkert upp í hendurnar á þér.

 

Hvar sérðu sjálfan þig fyrir þér eftir tíu ár?

Birgir Leifur: Að rúlla upp senior túrnum, miðla minni reynslu áfram og  þjálfa okkar framtíðarstjörnur.

Hvað er framundan í sumar?

Birgir Leifur: Tryggja European tour kortið aftur þar sem ég missti það í fyrra.

 

Á golf íþróttin á Íslandi mikið inni?

Birgir Leifur: Já alltof mikið finnst mér.

 

Einhver góð ráð að lokum til handa íslenskum golfurum?

Birgir Leifur: Dreymið stórt, fáið hjálp frá fagaðilum sem geta komið ykkur lengra og gefið 100% í verkefnið.

Við hjá Kírópraktorstöðinni þökkum Birgi Leif kærlega fyrir að gefa okkur tíma fyrir þetta viðtal og óskum honum góðs gengis í sumar og vonum svo sannarlega að hann, sem og aðrir golfarar landsins, láti ljós sitt skína á vellinum í sumar.

This site is registered on wpml.org as a development site.